Sam Allardyce, fyrrum landsliðsþjálfari Englands og margra liða, er ekki hættur og er tilbúinn að snúa aftur 70 ára gamall.
Allardyce greinir sjálfur frá en hann hefur ekki verið í starfi síðan 2023 og var það þá stutt stopp hjá Leeds.
‘Stóri Sam’ eins og hann er oft kallaður er til í slaginn á nýjan leik og er að bíða eftir símtalinu hvort það sé frá fyrrum liði sínu Bolton eða öðrum liðum.
,,Ég er tilbúinn að hjálpa hvaða liði sem er, hvort sem það sé í þjálfarastarfi eða í öðru starfi,“ sagði Allardyce.
,,Þetta þyrfti að vera frábært verkefni, þar sem við horfum í sömu átt. Þú hugsar kannski að það sé staðan hjá öllum fótboltaliðum en trúið mér, það er ekki staðan!“
Allardyce var svo spurður út í það hvort hann gæti snúið aftur til Bolton og hafði þetta að segja:
,,Ég held ekki en ef þeir vilja mig þá geta þeir alltaf hringt – ég er búsettur í bænum.“