Cesc Fabregas, fyrrum leikmaður Arsenal, Barcelona og Chelsea, er orðaður við áhugavert starf í þýskum fjölmiðlum.
Fabregas er stjóri nýliða Como í Serie A á Ítalíu og er að gera flotta hluti. Er hann með liðið í 13. sæti deildarinnar.
Þetta hefur heillað stærri félög og nú segir þýska blaðið Bild að RB Leipzig skoði það að ráða Spánverjann.
Leipzig, sem hefur verið stórt lið í Þýskalandi undanfarin ár, rak Marco Rose á dögunum og hefur Oliver Glasner hjá Crystal Palace meðal annars verið orðaður við starfið.
Samkvæmt þessum fréttum er hins vegar hugsanlegt að það verði Fabregas sem tekur við.