Það er enn möguleiki á að Kai Havertz spili fyrir Arsenal áður en tímabilinu lýkur.
Þetta sagði Mikel Arteta, stjóri liðsins, á blaðamannafundi í dag. Havertz, sem er lykilmaður hjá Arsenal, hefur verið frá síðan í febrúar eftir að hafa rifið vöðva aftan í læri og þurft að fara í aðgerð.
Það var talið pottþétt að hann yrði frá út leiktíðina en Arteta segist vonast til að sjá hann aftur fyrir lok tímabils.
Hann ræddi einnig meiðsli Riccardo Calafiori, sem hefur verið frá undanfarna leiki. Sagði Spánverjinn að endurhæfingin gengi vel en hann vissi ekki nákvæmlega hvenær hann snýr aftur á völlinn.
Arsenal mætir Brentford á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni á morgun. Það snýst þó allt um Meistaradeildina hjá liðinu, en það leiðir 3-0 þar gegn Real Madrid eftir fyrri leikinn í 8-liða úrslitum.