Rebecca Loos, konan sem David Beckham á að hafa haldið framhjá eiginkonu sinni Victoriu með, stal fyrisögnunum í gær er hún rifjaði upp hið meinta framhjáhald.
David á að hafa haldið framhjá með Loos eftir að hann gekk í raðir Real Madrid frá Manchester United 2003. Hún var aðstoðarkona hans en fjölskylda David flutti ekki út til spænsku höfuðborgarinnar fyrst um sinn.
Í heimildaþáttum um Beckham segja hann og eiginkona hans að í kjölfar ásakananna hafi tekið við erfiðasta tímabil í lífi þeirra. Beckham hefur alltaf neitað sök, en Loos opnaði sig um málið í viðtali við Sky árið 2004.
Loos var gestur í nýjasta þætti 60 minutes í Ástralíu. Þar opnar hún sig um málið og bakkar hvergi frá fullyrðingum sínum um framhjáhaldið.
„Að mínu mati sýndi ég mikið hugrekki með því að fara upp á móti þeim. Ég hef alltaf haldið mig við sannleikann og ekki ýkt neitt. Ég fór gegn valdamesta parinu í fjölmiðlum sem höfðu allan pening í heiminum. Það eina sem ég hafði með mér í liði var sannleikurinn,“ sagði hún til að mynda þar.
Að þessu tilefni hefur fréttaflutningur af Loos og meinta framhjáhaldinu með Beckham verið rifjaður upp, en hún hefur til að mynda áður tjáð sig um kynlíf þeirra.
„Við gátum setið og spjallað alla nóttina, annað fólk tók auðvitað eftir þessu. Við tengdumst bara strax, straumurinn á milli mín og Beckham var svo sterkur,“ sagði Loos, áður en hún fór frekar út í smáatriði.
„Hann kann að láta konu njóta sín, hann óttast ekki kvennmannslíkamann. Hann vissi alveg hvernig átti að gera hlutina.“
Ástin sigraði að lokum hjá David og Victoriu og tókst hjónunum að komast yfir þennan erfiða kafla. Ári eftir að Victoria flutti til Spánar eignuðust þau þriðja barn sitt, drenginn Cruz, í febrúar 2005. Þau hafa nú verið gift í 24 ár.
Þess má geta að í dag er Loos tveggja barna móðir og er hún búsett í Noregi.