Þetta hefur mikið verið í umræðunni undanfarin ár, nú síðast var fyrirliði Vestra, Elmar Atli Garðarsson, dæmdur í tveggja mánaða bann fyrir að veðja á leiki.
Í fundargerð kemur fram að á fundinum hafi miklar umræður skapast um málið í kjölfar þess að Heimir Fannar Gunnlaugsson, nýr formðaur ÍTF, flutti erindi um það.
„Heimir Fannar ræddi um veðmál og ábyrgð félaga og leikmanna, um hvernig væri hægt að fræða leikmenn og aðra fulltrúa félaganna um gryfjurnar í veðmálum, og að félögin sjálf og leikmenn og/eða aðrir fulltrúar félaganna taki ábyrgð.
ÍTF og KSÍ eru bæði með verkefni í vinnslu og undirbúningi sem snúa að fræðslu um veðmál og veðmálafíkn. Margir stjórnarmenn tóku til máls, lýstu yfir áhyggjum sínum af þessum málum almennt, og fögnuðu því jafnframt að ýmis verkefni væru í bígerð,“ segir um málið í fundargerðinni.