Sparkspekingurinn Kristján Óli Sigurðsson segir Oliver Ekroth, varnarmann Víkings, hafa komist upp með að vera of grófur í íslenska boltanum undanfarin ár.
Kristján ræddi þetta í Þungavigtinni eftir æfingaleik Víkings og KR á dögunum, en hann segir dómara hér á landi ekki taka nógu hart á Svíanum.
„Oliver Ekroth breytist seint, mesti hrottinn í deildinni,“ sagði Kristján og var beðinn um að útskýra sitt mál.
„Hann gengur eins langt og dómararnir leyfa og þeir leyfa honum að ganga allt of langt. Þá heldur hann því áfram þar til það verður stoppað,“ sagði hann enn fremur.
Ekroth gekk í raðir Víkings fyrir tímabilið 2022. Þess má geta að hann var í sæti númer 132-144 sem gerðust brotlegir í augum dómara Bestu deildarinnar í fyrra samkvæmt tölfræði Fotmob.