Manuel Ugarte og Harry Maguire æfðu ekki með Manchester United í dag og ferðast ekki með liðinu til Spánar nú síðdegis.
Báðir meiddust þeir í leik gegn Fulham í enska bikarnum á sunnudag en United heimsækir Real Sociedad á morgun.
Um er að ræða fyrri leik liðanna í 16 liða úrslitum Evrópudeildarinnar.
Ugarte og Maguire hafa verið í stóru hlutverki eftir að Ruben Amorim tók við United.
United hefur verið í tómum vandræðum innan vallar síðustu vikur og mikil meiðsli hafa herjað á liðið á sama tíma.