Fyrrum þjálfari Mohamed Salah vonar það heitt að kappinn verði áfram hjá Liverpool næstu árin.
Eins og flestir vita er Egyptinn að verða samningslaus og getur gengið frítt frá Liverpool í sumar ef samningur hans verður ekki framlengdur. Stuðningsmenn enska liðsins halda í vonina um að hann verði áfram, enda Salah að eiga eitt sitt allra besta tímabil frá komu sinni til Bítlaborgarinnar 2017.
„Hann hefur átt átta stórkostleg ár hjá Liverpool og tölfræðin er mögnuð,“ segir Diaa El-Sayed, sem þjálfaði Salah í U-20 ára landsliði Egypta og hefur þekkt kappann síðan hann var barn.
El-Sayed fer ekki leynt með það að hann hafi engan áhuga á að Salah fari annað.
„Ég vona að hann verði áfram hjá Liverpool. Ég veit að Salah elskar félagið og borgina. Hann myndi elska að vera áfram. Ég vil ekki heyra það að hann fari til Sádi-Arabíu, PSG eða neitt annað,“ segir hann.
„Það er út af honum sem við Egyptar höldum með Liverpool. Við viljum sjá hann ljúka ferlinum þarna.“