Jónas Grani Garðarson var rekinn úr starfi sem sjúkraþjálfari Kortrijk í Belgíu í janúar. Frá þessu segir hann á Facebook síðu sinni.
Freyr Alexandersson hafði fengið Jónas til starfa en hann hafði árin á undan starfað sem sjúkraþjálfari í Katar.
Þegar Freyr var rekinn frá belgíska liðinu fékk Jónas að fjúka sömu leið. Jónas Grani var öflugur sóknarmaður á yngri árum og lék fyrir Fram, FH og fleiri lið.
Eftir að hafa fengið svipað spark og Freyr í rassinn í byrjun janúar hefur lífið verið frekar rólegt hérna í Belgíu. Rassinn var aumur en sálin og samviskan góð. Það var ný upplifun að vera rekinn og sjaldgæft þegar maður hefur -sjúkra- titilinn fyrir framan þjálfari,“ skrifar Jónas Grani á Facebook.
Eitthvað virðist hafa gengið á þegar Jónas var rekinn. „En ég mun aldrei gefa eftir varðandi mikilvægi þess að varðveita viðkvæmar upplýsingar (sjúkra upplýsingar) – það eru upplýsingar sem þarf að varðveita á sem bestan veg. Það vita allir, vonandi, sem starfa í heilbrigðisþjónustu.“
Jónas Grani situr þó ekki auðum höndum og aðstoðaði landsliðsmanninn, Guðlaug Victor Pálsson í síðustu viku. „Að hafa lausar stundir getur svo auðvitað boðið upp á skemmtileg verkefni eins og það að vinna með Guðlaugi Victori í síðustu viku. Það tekur á að vera í iðnaðinum í Championship deildinni á Englandi – og landsleikir framundan. Virkilega flottur og góður að vinna með og frábær félagsskapur, við náum vel saman. Framtíðin er alveg óráðin en við fjölskyldan fljúgum heim 20. mars.“