Það ríkir mikil reiði á meðal stuðningsmanna FC Kaupmannahafnar í kjölfar ummæla Lars Seier Christensen, sem á um 22 prósenta hlut í félaginu, um Volodymyr Zelenskyy á dögunum.
Christensen gagnrýndi Zelenskyy eftir umtalaðan fund með Donald Trump Bandaríkjaforseta, þar sem mönnum var heitt í hamsi. Sakaði Christensen Úkraínuforseta um dóna- og kjánaskap.
Stuðningsmannahópar FCK og fleiri hafa lýst yfir óáægju vegna ummæla Christensen en ekkert hafði heyrst frá félaginu sjálfu þar til í dag stjórnarformaðurinn Jacob Lauesen tjáði sig við Bold í dag.
„Það kemur mér á óvart hversu margir setja spurningamerki við hvar FCK stendur í þessum efnum vegna ummæla minnihlutaeiganda. Þau endurspegla ekki okkar gildi, svo einfalt er það,“ sagði Lauesen.
„Við virðum tjáningarfrelsi og í þessu tilfelli erum við Christensen ósammála,“ segir Lauesen enn fremur og að FCK geti ekki skipt sér af því sem hluthafar sem ekki eru í stjórn félagsins láti út úr sér.
FC Kaupmannahöfn tekur á móti Chelsea annað kvöld í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Viðurkennir Lauesen því að tímasetningin á þessu máli sé óheppileg.