Það vakti athygli í síðustu viku þegar Kjartan Kári Halldórsson hafnaði Val og ákvað að vera áfram hjá FH, þar sem hann er lykilmaður. Ekki eru allir til í að útiloka það að Kjartan fari þó frá FH fyrir tímabil, eins og fram kom í útvarpsþættinum Fótbolti.net um helgina.
Kjartan er einn besti leikmaður FH og hefur verið mikið orðaður við Val og Víking í vetur. Sem fyrr segir hefur hann þó hafnað fyrrnefnda liðinu en því var fleygt fram í þætti Fótbolta.net að hann gæti enn farið í Víking.
„Ef einhver ætlar að segja mér það að Víkingur sé ekki búinn að heyra í Kjartani Kára og segja við hann að þeir ætli að taka hann ef og þegar Ari fer út, þá skal ég hundur heita,“ sagði sparkspekingurinn Valur Gunnarsson. Þarna á hann við Ara Sigurpálsson sem hefur mikið verið orðaður við atvinnumennsku.
„Ég hef ekkert fyrir mér í þessu, en ég sem aðdáandi deildarinnar finnst þetta augljóst,“ bætti Valur við.
Málefni Kjartans voru einnig rædd í Íþróttavikunni hér á 433.is fyrir helgi. Þar hrósaði Jóhann Páll Ástvaldsson, íþróttafréttamaður á RÚV, ákvörðun leikmannsins um að vera áfram í Kaplakrika.
„Mér finnst þetta eitt það nettasta sem leikmaður hefur gert í langan tíma,“ sagði Jóhann um málið í þættinum.