Þremur leikjum var að ljúka í Meistaradeild Evrópu. Um var að ræða fyrri leiki í 16-liða úrslitum.
Það er óhætt að segja að Arsenal sé svo gott sem komið í 8-liða úrslit eftir 1-7 sigur á PSV í Hollandi.
Það sá fljótt í hvað stefndi. Jurrien Timber kom Arsenal yfir á 18. mínútu og skömmu síðar tvöfaldaði hinn ungi Ethan Nwaneri forystuna. Mikel Merino átti eftir að bæta við þriðja marki Arsenal áður en Noa Lang minnkaði muninn fyrir heimamenn af vítapunktinum.
Martin Ödegaard skoraði fjórða mark Arsenal snemma í seinni hálfleik og skömmu síðar kom Leandro Trossard gestunum í 1-5. Ödegaard var svo aftur á ferðinni með mark á 73. mínútu og fyrir leikslok skoraði Ricardo Calafiori sjöunda markið. Lokatölur 1-7 og einvígið dautt fyrir seinni leikinn í London í næstu viku.
Real Madrid vann þá 2-1 sigur í hörkuleik gegn nágrönnunum í Atletico Madrid. Rodrygo kom heimamönnum yfir snemma leiks en Julian Alvarez jafnaði metin eftir rúman hálftíma.
Brahim Diaz kom Real Madrid yfir á ný eftir um tíu mínútur í seinni hálfleik og þar við sat. Lokatölur 2-1.
Hákon Arnar Haraldsson heldur áfram að gera vel með Lille en hann jafnaði metin í 1-1 gegn Dortmund í kvöld. Karim Adeyemi hafði komið þýska liðinu yfir. Lokatölur reyndust 1-1 og allt opið fyrir seinni leikinn í Frakklandi.