Stefán Teitur Þórðarson, leikmaður Preston og íslenska landsliðsins, var í viðtali hjá enskum miðlum fyrir leik liðsins gegn Aston Villa í enska bikarnum.
Stefán er einn af fáum Íslendingum sem spila á Englandi en er alinn upp af mikill fótboltafjölskyldu eins og margir vita.
Alls eru tíu manns í sögunni í sömu fjölskyldu og Stefán sem hafa spilað fyrir íslenska landsliðið sem er enginn smá árangur.
Faðir Stefáns er fyrrum markvörðurinn Þórður Þórðarson sem lék með liðum eins og ÍA, Norrkoping og Val en hann á einnig að baki einn landsleik fyrir Ísland.
Stefán, Ólafur og Teitur Þórðarsynir eru einnig á meðal þeirra sem deila fjölskyldublóðinu en þeir eiga allir að baki landsleiki fyrir Ísland.
,,Um leið og þú fæðist í minni fjölskyldu þá færðu bolta í lappirnar! Það er eins og allir í fjölskyldunni hafi spilað fyrir Ísland,“ sagði Stefán.
,,Ég er heppinn að eiga fjölskyldu sem veit hvað ég er að ganga í gegnum sem fótboltamaður og þau hafa hjálpað mér mikið.“
,,Pabbi spilar lykilhlutverk en hann var markvörður heima fyrir en lék líka fyrir Norrkoping í Svíþjóð í tvö ár.“
,,Ég get svo nefnt frænda minn Stefán – ég er skírður í höfuðið á honum. Hann var á mála hjá Stoke á milli 2000 til 2002.“
,,Millinafn mitt er Teitur sem ég fæ frá frænda mínum sem spilaði með Lens og Cannes í Frakklandi.“