Dietmar Hamann, fyrrum leikmaður Liverpool, vonar að félagið horfi til erkifjenda sinna í Everton í leit að eftirmanni Virgil van Dijk.
Óvíst er hvort Van Dijk verði áfram hjá félaginu næsta vetur en hann verður samningslaus í sumar.
Það er ekki algengt að leikmenn skipti úr Liverpool í Everton og öfugt en Hamann telur að hinn enski Jarrad Branthwaite sé fullkominn arftaki Hollendingsins.
,,Það er langt síðan einhver leikmaður skipti á milli Everton og Liverpool – ég veit það var talað um Anthony Gordon nýlega sem er með tengingu við þá bláu,“ sagði Hamann.
,,Nicky Barmby tók þetta skref á sínum tíma en ég held að munurinn á liðunum sé svo stór í dag að það sé skiljanlegt ef hann færir sig yfir.“
,,Þegar kemur að Jarrad Branthwaite, ef Liverpool hefur áhuga á honum þá mun félagið finna lausn á þessu máli.“