Jimmy Floyd Hasselbaink, fyrrum sóknarmaður Chelsea, hvetur Liam Delap til að hafna stórliðum Manchester United og Chelsea í sumar.
Delap er 22 ára gamall sóknarmaður Ipswich en hann er orðaður við þessi tvö félög þar sem Ipswich er á leið niður.
Hasselbaink telur að Delap muni ekki gera sjálfum sér neinn greiða með því að semja við þessi lið þar sem bekkjarsetan yrði mikil.
Hasselbaink vill halda leikmanninum í úrvalsdeildinni en telur að hann eigi frekar að horfa á smærri lið.
,,Varðandi Delap, ég veit að stórlið eru að horfa til hans. Það er útlit fyrir að Ipswich sé á leið niður,“ sagði Hasselbaink.
,,Hann þarf að halda sig í ensku úrvalsdeildinni. Það er mikilvægt fyrir hann að fá að spila, hann má ekki vera varamaður. Ef ég væri umboðsmaður hans þá myndi ég ráðleggja honum að hafna stærstu liðunum.“