Pep Guardiola, stjóri Manchester City, vildi lítið segja um framtíð Kevin De Bruyne á blaðamannafundi í dag.
Belgíski miðjumaðurinn verður samningslaus í sumar. Hann hefur verið einn besti leikmaðurinn í frábæru liði City undanfarin ár en það er farið að hægjast á honum.
„Þetta er á milli félagsins og svo Kevin og hans fulltrúa,“ segir Guardiola um málið.
„Ég hugsa bara um liðið og að reyna að enda tímabilið eins vel og hægt er.“
City er að eiga ansi dapurt tímabil á sinn mælikvarða og er í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Þá er liðið dottið úr leik í Meistaradeildinni en mætir Bournemouth í bikarnum á sunnudag.