Viðræður milli Liverpool og Mohamed Salah um nýjan samning eru komnar lengra en nokkru sinni fyrr samkvæmt fjölmiðlum í heimalandi hans, Egyptalandi.
Samningur Salah rennur út eftir tímabilið og getur hann farið frítt ef ekki verður samið við hann. Kappinn er að eiga ótrúlegt tímabil og félagið og stuðningsmenn vilja því ekki missa hann.
Viðræður standa yfir milli umboðsmanns Salah og Liverpool og sem fyrr segir ganga þær vel samkvæmt þessum fréttum. Á Liverpool að hafa hækkað fyrra boð sitt til leikmannsins.
Yfirvofandi brottför Trent Alexander-Arnold á frjálsri sölu til Real Madrid er þá sögð hafa áhrif á stöðu mála hjá Salah, en það losar um töluverðan launakostnað.