Reece James viðurkennir að hann hafi verið hissa í gær er hann skoraði sitt fyrsta landsliðsmark fyrir England.
James skoraði stórbrotið mark beint úr aukaspyrnu en hann var að byrja sinn fyrsta landsleik í langan tíma eftir þrálát meiðsli.
Bakvörðurinn fékk að spreyta sig fyrir utan teig í 3-0 sigri á Lettlandi og sneri boltann frábærlega framhjá varnarveggnum.
,,Það hefur liðið langur tími, undanfarin tvö ár hafa verið pirrandi. Ég er svo ánægður að fá tækifærið með landsliðinu á ný,“ sagði James.
,,Ég horfði á vegginn og fannst ég geta beygt boltann framhjá honum – ég var nokkuð hissa á að boltinn hafi farið í netið.“
,,Við erum með eitt markmið og það byrjar núna og endar með HM 2026.“