KR stefnir að því að spila sinn fyrsta eiginlega heimaleik, þ. e. á sínum heimavelli í Vesturbænum, í Bestu deild karla 10. maí, en það er þriðji heimaleikur KR í sumar.
KR vinnur um þessar mundir að því að skipta um undirlag á Meistaravöllum þar sem gervigras verður lagt í stað grassins sem áður var. KR mun leika fyrstu tvo heimaleiki sína í Bestu deildinni á velli Þróttar í Laugardal.
Magnús Orri Schram, formaður knattspyrnudeildar KR, segir í samtali við mbl.is að framkvæmdir gangi vel og það sé stefnt að því að þriðji heimaleikurinn fari fram vestur í bæ.
„Þessu miðar mjög vel. Við erum mjög ánægð með gang mála núna. Tíðin er góð þannig að þetta lítur bara vel út. Það er mikil tilhlökkun innan félagsins að fara að spila á endurbættum velli. Það hlakka allir mikið til að fá betri aðstöðu fyrir alla okkar flokka. Það er mikil tilhlökkun fyrir því að fara að spila vestur í bæ en það verður ekki fyrr en 10. maí,“ segir nýi formaðurinn.