Það gæti brugðið til beggja vona hjá KR í Bestu deild karla í sumar. Þetta sögðu sérfræðingar Íþróttavikunnar á 433.is í síðasta þætti.
Það var snert á liðunum í deildinni og horfurnar fyrir komandi sumar. Að sjálfsögðu var komið inn á KR, sem er á leið inn í sitt fyrsta heila tímabil með Óskar Hrafn Þorvaldsson í brúnni.
Liðið hefur sankað að sér leikmönnum í vetur og eru margir spenntir fyrir því sem koma skal í Vesturbænum.
„Þetta gæti farið í báðar áttir. Þeir eru að spila Óskars-bolta á fyrsta tímabili og margir leikmenn sem hafa verið að spila í deildinni fyrir neðan og ég veit ekki hvort þeir eru nægilega góðir,“ sagði Hrafnkell Freyr Ágústsson í þættinum.
Hinn afar geðþekki Sigurbjörn Hreiðarsson var með honum í setti og tók því næst til máls.
„Mér finnst nokkrir sem þeir hafa fengið mjög skemmtilegir. Mér finnst ótrúlega gaman að horfa á þá spila. Auðvitað eru þeir opnir og Óskar vill fá ákveðið flæði inn. En leikmennirnir hafa bullandi trú á þessu og það er kannski annað en var fyrir ári.“
Umræðan í heild er í spilaranum.