Það vakti mikla reiði stuðningsmanna Norrköping þegar Arnór Sigurðsson samdi við Malmö í sömu deild eftir að hafa yfirgefið enska liðið Blackburn.
Arnór var hjá Norrköping ungur að árum og svo aftur frá 2022 til 2023 á láni frá CSKA Moskvu. Var hann í miklum metum hjá félaginu og vakti það því reiði stuðningsmanna er hann samdi við Malmö í vetur.
„Þegar þetta snýr að fjölskyldunni þá er það of mikið. Mér er alveg sama hvað er skrifað um mig sjálfan. En þegar þeir blanda fjölskyldunni inn í hótanir þá er það of mikið. En ég hugsa aðallega „aumingja fólkið sem skrifar svona“. Þau sýna hvers konar manneskjur eru við skjáinn,“ segir Arnór við fjölmiðla í Svíþjóð, en Vísir vekur athygli á því.
„Ég reyni að halda fjölskyldunni frá þessu. Mamma og pabbi myndu hugsa meira um þetta ef þau fengju að sjá skilaboðin. En sem fótboltamaður þá hlær maður bara að þessu.“