Declan Rice, leikmaður enska landsliðsins, hefur tjáð sig um markvörð sem fáir kannast við en hann ber nafnið Rihards Matrevics.
Matrevics var um tíma á mála hjá West Ham ásamt Rice en hann er um tveir metrar á hæð og spilar sem markvörður.
Matrevics er 26 ára gamall í dag og er landsliðsmarkvörður Lettlands sem spilar við England í Þjóðadeildinni.
Rice hafði ekkert nema góða hluti að segja um þennan ágæta mann fyrir leikinn en markvörðurinn er í dag á mála hjá liði Auda í heimalandinu.
,,Ef þið fáið að sjá hann í leiknum, hann er í kringum 230 sentímetra! Hann er svo hávaxinn. Ég er ekki að ljúga, hann er svo, svo hávaxinn,“ sagði Rice og var þar augljóslega að ýkja hæð leikmannsins.
,,Ég man þegar hann kom til West Ham og ég hugsaði með mér að þetta væri algjört skrímsli. Hann talaði ekki mikla ensku en þetta var í raun ótrúlegt.“
,,Hann er svo vingjarnlegur náungi og ég hlakka til að sjá hann á leiknum því það er langt síðan við hittumst.“