Handboltagoðsögnin Björgvin Páll Gústavsson kom Aroni Einari Gunnarssyni og öðrum eldri leikmönnum íslenska fótboltalandsliðsins til varnar í kjölfar gagnrýni frá Lárusi Orra Sigurðssyni.
Rætt var um dapra frammistöðu Arons í 3-1 tapinu gegn Kósóvó í gær, þar sem hann kom inn á og fékk rautt spjald. Á Stöð 2 Sport eftir leik hvatti Lárus Aron og aðra eldri leikmenn til þess að yfirgefa fótboltann, áður en fótboltinn yfirgefur þá.
„Mikið rosalega er ég ósammála þessu. Þarna er maður að fórna sér fyrir liðið eins lengi og þörf er á hans kröftum. Þetta snýst, allavega hjá mér, ekki um einhvern fullkominn endi. Persónulega mun èg spila fyrir landsliðið þangað til að ég er ekki valinn og tek því hlutverki sem mér er gefið.
Landsliðið á ekki að snúast um einstaklinginn og ef ég væri bara að hugsa um sjálfan mig, minn spiltíma eða mína arfleið, þá væri ég löngu hættur. Ég er nefnilega líka að þessu fyrir strákana, þjóðina, börnin mín ofl. Held að Aron, Gylfi ofl. séu á svipuðum stað,“ skrifar Björgvin um málið á Facebook.