Cristiano Ronaldo er alls ekki fúll út í Rasmus Hojlund eftir að þeir mættust í Þjóðadeildinni í miðri viku.
Hojlund skoraði eina mark Dana í 1-0 sigri á Portúgal og fagnaði að hætti Ronaldo – leikmanns sem hann lítur mikið upp til.
Ronaldo tók ekki illa í ákvörðun Hojlund að nota fagnið en vonast til að gera það sama í seinni leik liðanna í umspilinu.
,,Þetta var ekkert vandamál fyrir mig, ég veit að hann var ekki að vanvirða mig. Það er ekki bara hann sem fagnar eins og ég,“ sagði Ronaldo.
,,Þetta er heiður fyrir mig og ég vona að ég geti gert það sama við hann á morgun. Ég er ánægður með að hann sé hrifinn af fagninu mínu.“