Sigurbjörn Hreiðarsson var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni á 433.is.
Það var rætt um Bestu deildina, sem fer senn að hefjast, í þættinum og þar á meðal FH, en Sigurbjörn þjálfaði liðið einmitt ásamt Ólafi Jóhannessyni 2022. Menn voru ekkert allt of bjartsýnir þegar talaða var um Hafnfirðinga og komandi sumar.
„Þeir missa Ástbjörn og Gyrði og núna Ólaf og Loga. Fyrir þá er þetta svakalega mikið. Þeir skiptu rosalega miklu máli fyrir klefann og þess háttar. Ég veit ekki alveg hvar ég hef FH,“ sagði Sigurbjörn.
„Mér finnst þeir algjört spurningamerki,“ sagði Hrafnkell.
Nánar er rætt um FH, eins og sjá má í spilaranum, en þegar Helgi spurði að því hvort FH gæti verið í fallbaráttu í sumar kom upp skemmtilegt atvik í setti.
„Já, ég er þar. Við höfum séð það áður og það var örugglega betri hópur en þetta,“ sagði Hrafnkell og átti þar við sumarið 2022, þegar Sigurbjörn var þjálfari hluta leiktíðar.
„Þú veður hérna í mig maður,“ sagði Sigurbjörn eftir þessi ummæli Hrafnkels og uppskar mikinn hlátur.
Umræðan í heild er í spilaranum.