Það var rætt um Aron Einar Gunnarsson í kvöld á Stöð 2 Sport þar sem Kári Árnason og Lárus Orri Sigurðsson voru sérfræðingar eftir landsleik Íslands við Kósovó sem tapaðist 3-1.
Aron átti ekki góðan leik í kvöld og fékk að líta rautt spjald í seinni hálfleik eftir að hafa komið inná í hálfleik.
Aron er að sjálfsögðu goðsögn í íslenska landsliðinu og afrekaði frábæra hluti á sínum tíma en var ekki góður í þessum glugga að margra mati.
Lárus Orri sem er fyrrum landsliðsmaður hafði þetta að segja um Aron eftir leikinn í kvöld.
,,Þessi gluggi hjá Aroni var ekki góður. Hann var ekki góður í síðasta leik og hann var ekki góður í þessum leik heldur,“ sagði Lárus.
,,Það er erfitt að tala um þetta, það er erfitt að sjá Aron í þessari stöðu sem hann er í. Í þessum leik átti hann mjög erfitt uppdráttar – hann var búinn að vera inná í 15 mínútur og það var eins og hann væri gjörsamlega búinn á því.“
,,Ég segi það ekki bara við Aron heldur alla þessa stráka sem eru að spila, passið ykkur á því að ‘leave the game before the game leaves you.’ Þú hefur bara viss mikinn tíma til að ákveða hvenær þú hættir í landsliðinu og á endanum verður það ákveðið fyrir þig.“