Barcelona missti af því að semja við sóknarmanninn Julian Alvarez sem var fáanlegur fyrir aðeins 22 milljónir evra.
Frá þessu greinir Barca Universal en Barcelona fékk boð frá River Plate á sínum tíma sem gerði sér grein fyrir því að leikmaðurinn væri á leið til Evrópu.
Alvarez var stuttu síðar seldur til Englands þar sem hann lék í tvö ár með Manchester City en hélt svo til Spánar og samdi við Atletico Madrid.
Alvarez hefur spilað glimrandi vel með Atletico á tímabilinu og hefur skorað 23 mörk í 44 leikjum.
Barcelona er sagt naga sig í handabökin í dag fyrir það að taka ekki við leikmanninum á sínum tíma en hann er í dag orðaður við félagið og myndi kosta yfir 100 milljónir.