Belgíski miðjumaðurinn Marciano Aziz er genginn til liðs við Gróttu og mun leika með liðinu í sumar. Aziz, sem verður 24 ára á árinu, er knattspyrnuáhugafólki að góðu kunnur en hann kom eins og stormsveipur inn í lið Aftureldingar sumarið 2022 og skoraði 10 mörk í 10 leikjum fyrir Mosfellinga. Hann lék svo með HK í Bestu deildinni sumarið 2023 og fyrri hluta tímabils 2024.
Fyrir komuna til Íslands lék Aziz með belgíska félagin Eupen og kom við sögu í yngri landsliðum Belgíu.
Magnús Örn Helgason yfirmaður knattspyrnumála á von á tilþrifum frá Aziz í bláu treyjunni:
„Það eru frábær tíðindi að Marciano hafi skrifað undir hjá Gróttu. Hann kemur til móts við liðið í æfingaferðinni á Spáni í byrjun apríl og byrjar vonandi að láta til sín taka strax í Mjólkurbikarnum. Marciano er mjög teknískur leikmaður sem líður vel með boltann og hefur getu til að búa til og skora mörk. Við tökum vel á móti honum og hjálpum honum að finna taktinn hratt og vel. Þá veit ég að hann verður mikilvægur hlekkur í sóknarleik Gróttuliðsins í sumar.“