Xavi Simons, leikmaður RB Leipzig, er á óskalista Manchester United fyrir sumarið samkvæmt Sky í Þýskalandi.
Þessi 21 árs gamli leikmaður hefur lengi verið á radarnum hjá United sem einnig fylgdist með honum síðasta sumar. Þá var hann á láni hjá Leipzig frá PSG, en þýska félagið keypti hann endanlega þaðan nú í janúar á 42 milljónir punda.
Simons er fjölhæfur leikmaður og getur leyst flestar stöðurnar framarlega á vellinum. Hann er kominn með 8 mörk og 5 stoðsendingar í 25 leikjum á tímabilinu, en hann hefur eitthvað verið frá vegna meiðsla.
Hollenski landsliðsmaðurinn hefur hækkað töluvert í verði síðan Leipzig keypti hann í janúar og er talið að félagið myndi rukka tæplega 70 milljónir punda í sumar.