Arnar Gunnlaugsson, þjálfari íslenska landsliðsins, var að vonum svekktur með tap gegn Kósóvó í kvöld en tekur margt jákvætt úr leiknum.
Arnar tók við í vetur og stýrði Íslandi í fyrsta sinn í 2-1 tapi gegn Kósóvó í kvöld. Um var að ræða fyrri leik liðanna í umspili um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar en frammistaða Íslands var ekki sannfærandi.
„Það var margt jákvætt í þessu og líka einhver mistök. Mér fannst fyrri hálfleikur nokkuð góður. Við gerðum gott mark í fyrri hálfleik og vorum með ágætis stjórn,“ sagði Arnar við Stöð Sport eftir leik, en Orri Steinn Óskarsson skoraði mark Íslands eftir flottan undirbúning Ísaks Bergmann Jóhannessonar.
Arnar viðurkennir að hafa ekki verið nógu sáttur við seinni hálfleik, sér í lagi upphaf hans.
„Fyrsta korterið í seinni hálfleik var hörmung. Það var deyfð yfir mönnum. Maður hálfpartinn beið eftir markinu þeirra. Það er svekkjandi að tapa fyrri leiknum en vonandi náum við betri úrslitum á sunnudag.“