Liðin mætast í fyrri leik sínum í umspili um að halda sæti sínu í Þjóðadeildinni og hituðu þeir Guðmundur Benediktsson og Kjartan Henry Finnbogason, sem lýsa herlegheitunum í kvöld, upp fyrir leikinn í kvöld ásamt stjörnublaðamanninum og sjónvarpsmanninum Aroni Guðmundssyni.
„Gummi, þú efndir nánast til milliríkjadeilu á pizzastaðnum í gær þegar þú baðst um ananas á pizzuna,“ rifjaði Aron upp snemma í innslaginu, áður en Guðmundur tók til máls.
„Ég vil taka það fram að ég bað ekki um ananasinn. Ég spurði hvort það væri til ananas og það fór illa í heimamanninn. Ég get alveg viðurkennt það. En hann jafnaði sig og ég fékk mér pizzu með ananas.
Þetta hefur ekki haft neina eftirmála svo ég er alveg rólegur. En það snögg fauk í hann við þessa spurningu. Ég skil ekki þessa reiði, ég held þetta sé öfund gagnvart ananas,“ sagði Guðmundur léttur.
Að fá sér ananas á pizzu, eða ekki, hefur verið hitamál undanfarin ár. Guðni Th. fyrrum forseti Íslands tjáði eftirminnilega þá skoðun sína á sínum tíma að hann vildi banna slíkt, eins og flestir muna eftir.
Leikur Kósóvó og Íslands hefst klukkan 19:45 í kvöld og seinni leikur liðanna, eiginlegur heimaleikur Íslands, fer fram á sunnudag.