Íslenska karlalandsliðið tapaði fyrir Kósóvó í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar í kvöld.
Ísland byrjaði leikinn þokkalega en smátt og smátt tóku heimamenn yfir og kom Lumbardh Dellova þeim yfir á 19. mínútu eftir vandræðagang í vörn Íslands.
Landsliðsfyrirliðinn Orri Steinn Óskarsson svaraði þó skömmu síðar með flottri afgreiðslu eftir frábæran undirbúning Ísaks Bergmann Jóhannessonar.
Strákarnir okkar náðu ekki að fylgja þessu eftir með betri spilamennsku úti á vellinum en staðan í hálfleik var 1-1.
Seinni hálfleikur var vægast sagt slakur hjá íslenska liðinu og kom Elvis Rexhbejac Kósóvó yfir á ný á 58. mínútu.
Meira var ekki skorað og 2-1 lokaniðurstaðan. Liðin mætast í seinni leik sínum, sem er skráður heimaleikur Íslands, á Spáni á sunnudag.