Ísland mætir Kósóvó á morgun í fyrri leik liðanna í umspili um að halda sæti sínu í B-deild Þjóðadeildarinnar. Seinni leikurinn, eiginlegur heimaleikur Íslands, fer fram á sunnudag á Spáni.
Um verður að ræða fyrstu leiki Arnars sem þjálfari Íslands og hefur hann sagt frá því að miklar áherslubreytingar verði á liðinu undir hans stjórn.
„Ég er búinn að vera mjög ánægður með þessa 2-3 daga sem við höfum haft saman. Það er búið að vera mikið af upplýsingum og strákarnir búnir að vera frábærir. Það hafa verið góðir fundir og æfingar,“ sagði Arnar á blaðamannafundi um undanfarna daga.
„Þetta er núllpunktur. Við erum að hefja nýja vegferð og reyna að gera nýja hluti, auk þess að reyna að halda í það sem var gert vel í gamla daga. Mun þetta taka tíma? Að sjálfsögðu. Ég er samt mjög meðvitaður um að við þurfum að ná í úrslit og halda okkur í B-deildinni.“
Orri Steinn Óskarsson, sem Arnar valdi sem nýjan landsliðsfyrirliða á dögunum var með honum á fundinum og tók undir að vel hafi gengið að aðlaga sig að áherslum Arnars.