Michael Owen, fyrrum leikmaður Liverpool, er á því máli að það séu litlar sem engar líkur á því að Jack Grealish muni snúa aftur til Aston Villa á sínum ferli.
Grealish var gríðarlega vinsæll hjá Villa á sínum tíma áður en hann færði sig til Manchester City árið 2021 fyrir 100 milljónir punda.
Grealish hefur fengið hörð viðbrögð frá stuðningsmönnum Villa eftir þau skipti og virðist vera mjög óvinsæll í sínum heimabæ, Birmingham, í dag.
Englendingurinn gæti vel verið á förum frá City í sumar en ólíklegt er að hann snúi aftur heim að sögn Owen.
,,Jack Grealish hefði auðveldlega getað spilað í fjögur eða fimm ár fyrir Manchester City og svo snúið aftur til Aston Villa og átt þar magnaða sögu og frábæran feril. Í dag er ég ekki viss um að hann hafi áhuga á því sem er virkilega sorglegt,“ sagði Owen.
,,Þeir sem baula í leikjum hafa alltaf verið til staðar en það hefur aldrei verið hluti af því sem ég elska við leikinn. 99,9 prósent af aðdáendum eru góðar manneskjur sem eru að reyna sitt besta.“
,,Enginn á skilið að fara í vinnuna þar sem er baulað á þig og svo farið heim, hvernig sem það lætur þér líða. Þetta er ekki hluti af leiknum og þá sérstaklega ef þetta kemur frá þínu heimafólki.“