Ronald Koeman, landsliðsþjálfari Hollands, tjáði sig um framtíð landsliðsmannsins Virgil van Dijk á blaðamannafundi fyrir komandi leik gegn Spáni á fimmtudag.
Van Dijk verður samningslaus hjá Liverpool í sumar og hefur þar af leiðandi verið sterklega orðaður við brottför þar sem hann getur farið frítt þá.
Koeman var spurður að því hvort hann vildi ekki helst að miðvörðurinn yrði áfram á mála hjá Liverpool, það myndi henta landsliðinu best.
„Hvort sem hann skrifar undir hjá Liverpool eða öðru stóru liði skiptir mig ekki máli. Við sjáum hvað setur. Eins og ég skil Virgil vill hann halda sig á því stigi fótboltans sem hann er á í dag,“ svaraði Koeman.
Framtíð Van Dijk er því í algjörri óvissu áfram en miðað við þetta verður hann áfram hjá Liverpool eða fer í annað stórlið í Evrópuboltanum, frekar en til Sádi-Arabíu, þangað sem hann hefur til að mynda verið orðaður.