Knattspyrnufélagið Valur og Kristinn Freyr Sigurðsson hafa framlengt samning sinn og gildir hann nú út árið 2026 með möguleika á árs framlengingu. Fyrri samningur Kristins átti að renna út í lok þessa árs.
Kristinn sem fæddur er árið 1991 gekk til liðs við Val frá Fjölni fyrir tímabilið 2012 og hefur verið einn allra mikilvægasti leikmaður liðsins allar götur síðan.
„Það er mjög ánægjulegt að framlengja við Kidda sem er og verður einn okkar allra mikilvægasti leikmaður. Hann hefur verið hjá okkur meira og minna frá árinu 2012 með smá ævintýrum í Svíþjóð og Hafnarfirði. Hér líður Kidda best og okkur líður alltaf vel þegar hann er inni á vellinum,“ segir Breki Logason formaður meistaraflokksráðs Vals.
„Kiddi hefur sýnt okkur það að hann stígur upp þegar á þarf að halda. Hann er orðinn grjótharður Valsari og er einn af þessum jákvæðu leiðtogum liðsins. Á meðan það eru ennþá töfrar í löppunum á Kidda þá verður hann í Val.“