Aron Einar Gunnarsson fyrrum fyrirliði Íslands í fótbolta segist ekki stefna á það að spila með Þór í Lengjudeildinni. Frá þessu segir hann við Fótbolta.net.
Aron Einar gekk í raðir uppeldisfélagsins síðasta sumar og lék nokkra leiki, hafa forráðamenn Þórs vonast eftir endurkomu Arons í sumar.
Svo virðist sem fyrirliðinn hafi hug á því að spila áfram í Katar en hann er leikmaður Al-Gharafa þar í landi.
„Við sjáum hvernig staðan þróast. Ég skynja að það sé verið að breyta reglum í Katar og fjölga erlendum leikmönnum. Leiðinlega staðan núna er að geta ekki spilað í deildinni vegna útlendingakvóta en spila í Meistaradeild Asíu. Þeir ætla vonandi að breyta reglunum því það eykur mína möguleika. Ég stefni á að vera áfram úti, ég ætla ekki heim í sumar,“ sagði Aron við Fótbolta.net.
Hann segir planið vera að koma ekki heim í sumar. „Eins og staðan er í dag er það ekki planið. Það getur breyst eins og allt annað.“