Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool, segir tíðinda að vænta af framtíð sinni fyrir lok tímabils.
Van Dijk verður samningslaus í sumar og getur gengið frítt frá Anfield, eins og tveir aðrir lykilmenn Liverpool, þeir Mohamed Salah og Trent Alexander-Arnold.
„Þið fáið tíðindin áður en tímabilið klárast,“ segir Van Dijk, sem hefur verið í sjö ár hjá Liverpool.
„Öll mín einbeiting er hér og á verkefnið sem framundan er. Það er aðalatriðið og þannig er ég.“
Liverpool er langefst í ensku úrvalsdeildinni. Það tapaði hins vegar úrslitaleik enska deildabikarsins gegn Newcastle í gær og féll úr leik gegn PSG í Meistaradeildinni á dögunum.