Ari er lykilmaður hjá Víkingi en heldur nú utan eftir að hafa heillað hér heima. Kári Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi, segir við Fótbolta.net að munnlegt samkomulag sé í höfn um kaupverð og að það sé verið að ganga frá smáatriðum.
Kári segir ekki víst hvort Ari verði leystur af hólmi í Víkinni en Kjartan Kári Halldórsson hefur til að mynda verið orðaður við félagið. Fótbolti.net greinir þó frá því í dag að hann sé búinn að framlengja samning sinn við FH um eitt ár, til loka árs 2027. Hann hafnaði þá að ganga í raðir Vals á dögunum.
„Það er eitthvað sem ég vil ekki vera tala um, hann er ekki hér svo það skiptir svo sem engu máli. En hann er auðvitað rosalega spennandi leikmaður, ég neita því ekki, mjög góður,“ segir Kári um Kjartan.
Þá sagði sparkspekingurinn Kristján Óli Sigurðsson um helgina að Elmar Kári Enesson Cogic, leikmaður nýliða Aftureldingar í Bestu deildinni, væri einnig á blaði. Kári segir hann hafa komið inn á blað í Víkinni, eins og sennilega hjá flestum félögum í Bestu deildinni.
Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, var gestur í nýjasta þætti af Íþróttavikunni á 433.is og hrósaði Elmari einmitt í hástert þar og sagðist hlakka til að fylgjast með honum í deild þeirra bestu í sumar, en kappinn hefur slegið í gegn í Lengjudeildinni undanfarin ár.
„Ég er mjög spenntur. Hann, eins og margir aðrir í okkar liði, eru á frábærum aldri. Hann er 23 ára og enn að taka skrefið upp á við. Hann er mjög góður í dag og getur orðið ennþá betri. Hann veit það sjálfur og er að leggja mikla vinnu á sig til að verða betri. Ég er mjög spenntur að sjá hann spila í Bestu deildinni og er ekki í vafa um að hann muni standa sig vel,“ sagði Magnús í Íþróttavikunni.