Liverpool hefur áhuga á að fá Alexander Isak frá Newcastle í sumar og hefur sett sig í samband við fulltrúa hans.
Fabrizio Romano segir frá þessu á Youtube-rás sinni og að Arsenal hafi einnig mikinn áhuga, en sænski framherjinn hefur einmitt töluvert verið orðaður við Skytturnar.
Isak er að eiga magnað tímabil og hefur hann raðað inn mörkum. Skoraði hann til að mynda seinna mark Newcastle er liðið lagði Liverpool 2-1 í úrslitum enska deildabikarsins í gær.
„Bæði félög hafa áhuga en það er í algjörum forgangi hjá Arsenal að fá hann á meðan hann er eitt af nöfnunum á lista Liverpool,“ segir Romano um málið.
„Newcastle vill halda honum en eins og við vitum snýst þetta líka um peninga og fjármálareglur,“ segir ítalski stjörnublaðamaðurinn enn fremur.