Því er velt upp í dönskum miðlum í dag hvort Jacob Neestrup, þjálfari stórliðs FC Kaupmannahafnar, fái að taka pokann sinn bráðlega.
FCK hefur fengið tvö stig í síðustu þremur leikjum í dönsku úrvalsdeildinni og fer liðið 4 stigum á eftir toppliði Midtjylland inn úrslitakeppnina nú þegar deildinni hefur verið skipt í tvennt.
„Ég myndi klárlega segja að Jacob Neestrup sé í heitasta sætinu. FCK hefur fengið tvö stig úr síðustu þremur leikjum og það er ekki nógu gott fyrir lið sem vill vinna deildina og hefur varið öllum þessum peningum í leikmenn,“ segir blaðamaðurinn Mads Wehlast í hlaðvarpi Bold.
FCK hefur verið mikið Íslendingalið í gegnum tíðina. Sem stendur er markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson á mála hjá liðinu en hann er á eftir Dian Ramaj og Nathan Trott í goggunarröðinni.
Eins og margir vita lék Neestrup hér á landi árið 2010, en hann var á mála hjá FH.