Þriðja þáttaröð af Lengsta undirbúningstímabili í heimi hefst í kvöld á Stöð 2 Sport.
Baldur Sigurðsson hefur sem fyrr umsjón með þættinum og heimsækir hann Aftureldingu í þætti kvöldsins.
Bræðurnir Axel Óskar og Jökull Andréssynir eru að vonum áberandi í þættinum, en þeir gengu í raðir uppeldisfélagsins í vetur.
Í meðfylgjandi klippu sem Vísir birtir rifjar Jökull upp þegar bróðir hans manaði hann til að fara upp á svið þegar Auðunn Blöndal og Steinþór Hróar Steinþórsson voru að skemmta á þorrablóti Aftureldingar.
Jökull var ekki lengi að hugsa sig um og stökk upp á svið. Segir hann augnablikið sem hann gerði það eitt það besta á lífsleiðinni.