Magnús Már Einarsson, þjálfari nýliða Aftureldingar í Bestu deild karla, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í Íþróttavikunni á 433.is.
Það var rætt um fyrsta landsliðshóp Arnars Gunnlaugssonar í þættinum, en Hrafnkell telur að valið á hópnum gefi til kynna að hann muni notast við nýtt leikkerfi.
„Mér finnst þessi hópur gefa það til kynna að hann sé að fara í þriggja manna vörn, 3-5-2. Aron Einar verður pottþétt hafsent, við erum með Sverri Inga og Guðlaug Victor, Gulli hefur verið að spila í þriggja mann í þeim liðum sem hann hefur verið hjá. Það er mikið af strákum að spila vængbakvörð, Bjarki Steinn, Mikael Egill, Logi Tómasson.“
Magnús tók þá til máls.
„Eini ókosturinn við að skipta um kerfi er að það er rosalega lítill tími til að fara yfir þetta. Hann fær held ég tvær æfingar fyrir leik svo þetta þarf að ganga smurt fyrir sig. Það hefði sennilega verið betra að byrja þetta á vináttuleikjum. En hann er fær þjálfari og getur komið þessu vel til skila. Og einhverjir leikmenn eru svosem vanir þessu.“
Umræðan í heild er í spilaranum.