Magnús Már Einarsson, þjálfari nýliða Aftureldingar í Bestu deild karla, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í Íþróttavikunni á 433.is.
Oliver Sigurjónsson er einna þeirra leikmanna sem Magnús og Aftuelding hafa fengið til liðs við sig í vetur. Hann kom frá Íslandsmeisturum Breiðabliks og lýsti því yfir eftir skiptin í Mosfellsbæinn að hann hafi sjálfur haft mikinn áhuga á að ganga í raðir liðsins og heillast af stefnu þess undanfarin ár í Lengjudeildinni.
„Það er bara frábært og við finnum það þegar við ræðum við þessa leikmenn að það er eftirsóknarverðara að spila með okkur en það var áður. Ég veit ekki hversu marga fundi maður tók fyrstu árin þar sem menn fóru svo annað. Þá höfðu menn ekki trú á verkefninu og því sem við vorum að gera. En við höfum náð með mikill vinnu og þolinmæði og sýnt í verki að það er hörkustemning hjá okkur og við erum að gera góða hluti.
Við erum með ákveðna hugmyndafræði og góð ára í kringum félagið. Ég held það sýni sig með þeim leikmönnum sem við höfum fengið í vetur, við hefðum ekki átt breik í þetta fyrir nokkrum árum en þessir leikmenn voru allir spenntir að koma til okkar núna. Ég held að það sé til marks um það hversu vel við höfum verið að gera sem félag,“ sagði Magnús um þetta.
Umræðan í heild er í spilaranum.