Alex Freyr Elísson, leikmaður Fram, skrópaði á æfingu liðsins í á Marbella á Spáni í gær, en liðið er þar í æfingaferð.
Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, staðfestir þetta í samtali við Fótbolta.net.
„Ég get staðfest að hann mætti ekki á æfingu í gær og það er óásættanlegt. Ég kann ekki við að vera með mikið af reglum en ég ætlast til að menn mæti alltaf á æfingar. Við erum búnir að ræða málin hérna innanbúðar, erum búnir að ræða við Alex og taka á þessu.
Við höldum bara áfram með lífið, menn fá sína sénsa og þurfa bara að standa sig. Það getur öllum orðið á mistök,“ segir hann.
Alex Freyr kom upp í gegnum yngri flokka Fram og hefur alla tíð leikið með liðinu, fyrir utan tímabilið 2023 þar sem hann lék með Breiðablik og KA.