Tveimur einvígum var að ljúka í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Framlengt er í Madrídarslag Atletico og Real.
Arsenal var þegar komið áfram í 8-liða úrslit fyrir kvöldið eftir 1-7 sigur á PSV í fyrri leik liðanna í Hollandi. Mikel Arteta tefldi fram nokkuð breyttu byrjunarliði en þar mátti þó finna stór nöfn einnig.
Oleksandr Zinchenko kom Skyttunum yfir snemma leiks með flottu skoti en Ivan Perisic jafnaði á 18. mínútu leiksins. Declan Rice kom heimamönnum svo yfir á nýjan leik og sá til þess að staðan var 2-1 í hálfleik.
Couhaib Driouech jafnaði fyrir PSV á ný á 70. mínútu og þar við sat. Lokatölur á Emirates 2-2 og einvígið fer því 9-3 fyrir Arsenal samanlagt.
Aston Villa var einnig í ansi góðum málum eftir 1-3 útisigur á Club Brugge í fyrri leik liðanna. Enska liðið var ekki í neinum vandræðum með Belgana í kvöld.
Ekkert var skorað í fyrri hálfleik en snemma í þeim seinni kom Marco Asensio Villa yfir. Þá kláraði liðið leikinn á skömmum tíma því í kjölfarið tvöfaldaði Ian Maatsen forystuna áður en Asensio skoraði aftur.
Lokatölur í kvöld 3-0 og Villa vinnur einvígið samanlagt 6-1.