Fyrrum landsliðsmaðurinn í knattspyrnu, Rúrik Gíslason, vann sér inn tæpar 15 milljónir króna um helgina þegar hann vann þýska sjónvarpsþáttinn Elton 12. Hann ræddi málið í Brennslunni á Fm957 í morgun.
Þátturinn var sýndur í þýsku sjónvarpi um helgina þar sem Rúrik bar sigur úr bítum.
„Þátturinn gengur út á það, það eru tólf frægir sem koma saman og þetta er útsláttarkeppni. Það eru spurningar og þrautir, þú kemst áfram í næstu umferð eða dettur út,“ sagði Rúrik í þættinum.
Rúrik hefur notið mikilla vinsælda í Þýskalandi eftir að hann hætti í fótbolta og gerði garðinn frægan þegar hann vann vinsælan dansþátt þar í landi fyrir nokkrum árum.
„Þetta er skemmtiþáttur á laugardagskvöldi. Þetta tók þrjá klukkutíma í tökum.“
Rúrik sagði svo frá því að hann hefði fengið meira en þessar 15 milljónir, rætt var um töluna 17 milljónir.
„Svo færðu líka greitt bara fyrir að mæta,“ sagði Rúrik og svo hélt hann áfram. „Það er svo geðveikt að mæta í viðtal og tala bara um peninga, það er svo nett. Það er svo fokking nett,“ sagði Rúrik með mjög mikilli kaldhæðni.
„Ég vissi ekkert af þessu vinningsfé áður en ég mætti í þáttinn.“