William Saliba er ánægður hjá Arsenal og vill vinna titla með félaginu að eigin sögn.
Saliba gekk í raðir Arsenal 2019 en var lánaður út fyrstu tímabilin sín hjá félaginu. Hann sneri aftur 2022 og hefur verið lykilmaður í hjarta varnarinnar síðan.
Samningur hins 23 ára gamla Saliba rennur út eftir rúm tvö ár og hefur hann til að mynda verið orðaður við Real Madrid í nokkurn tíma.
„Ég er mjög ánægður hér hjá Arsenal. Ég á tvö og hálft ár eftir af samningi mínum og vil vera hér áfram. Við höfum ekki enn rætt um nýjan samning af því ég á einhver ár eftir. Það liggur ekkert á,“ segir Saliba, sem þykir á meðal betri miðvarða heims.
„Ég vil vinna stóra titla hjá Arsenal. Ef þú ferð héðan og vinnur ekki neitt munu stuðningsmenn gleyma þér. Ég ætla að vinna hérna.“