Liverpool hefur áhuga á Rodrygo, leikmanni Real Madrid og er til í að láta miðvörðinn Ibrahima Konate til Spánar á móti. Spænski miðillinn Defensa Central heldur þessu fram, en hann er staðsettur í höfuðborginni og fjallar einkum um málefni Real Madrid.
Konate hefur verið orðaður við Real Madrid undanfarið en talið er að félagið vilji fá hann frítt þegar samningur hans rennur út eftir næstu leiktíð, líkt og það ætlar sér með Trent Alexander-Arnold í sumar.

Liverpool hefur boðið Konate nýjan samning en sér tækifæri í því að senda hann til Real Madrid í sumar upp í kaupin á Rodrygo.
Það gæti vel verið að Liverpool, sem er langefst á toppi ensku úrvalsdeildarinnar, sjái brasilíska kantmanninn sem arftaka Mohamed Salah. Egyptinn, sem er að eiga ótrúlegt tímabil á Anfield, er að verða samningslaus og getur gengið frítt burt eftir nokkrar vikur.