Jóhann Páll Ástvaldsson, íþróttafréttamaður á RÚV, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í nýjasta þætti Íþróttavikunnar, sem kemur út alla föstudaga á 433.is.
Það var að sjálfsögðu rætt um allar helstu fréttir vikunnar, þar á meðal þau tíðindi að Kjartan Kári Halldórsson hafi hafnað val og ákveðið að vera áfram hjá FH, eins og hann sagði í samtali við Fótbolta.net.
Kjartan er lykilmaður FH og hefur verið orðaður við Val og Víking í vetur.
„Mér finnst þetta eitt það nettasta sem leikmaður hefur gert í langan tíma,“ sagði Jóhann um málið í þættinum.
Hrafnkell sagði að FH-ingar ættu ekki að fagna of snemma, Víkingur geti enn komið og bankað.
„Mig grunar að Víkingar hafi komið inn í þetta á einhverjum tímapunkti og sagt við hann að ef þeir selji Ara (Sigurpálsson) þá tökum við þig. Þá eðlilega er hann til í að bíða. En að segjast núna ætla að vera áfram í FH og fara svo mánuði seinna í Víking væri samt smá skrýtið,“ sagði Hrafnkell.
Jóhann tók til máls á ný og telur hann að Kjartan hafi einfaldlega verið að staðfesta að hann yrði áfram í Hafnarfirði. Vitnaði hann í setningu Leonardo Di Caprio sem Jordan Belfort í myndinni Wolf of Wall Street.
„Hann tók bara: „I’m not fucking leaving.“ Hann spilar allar mínútur með FH, er sennilega á föstum leikatriðum og jafnvel vítum líka. Það er ákveðin vissa í því á meðan ef þú ferð í Val, er möguleiki á að Tryggvi Hrafn Haraldsson komi inn á fyrir mig eftir 60 mínútur eða ég fyrir hann?“ sagði Jóhann.
„Leikur FH snýst um hann. Það er langbesta leiðin ef þú ætlar að láta taka eftir þér og fara aftur út,“ sagði Hrafnkell að endingu um málið.
Umræðan í heild er í spilaranum.